Sunnudagur hjá Ritu Frænku
Tókum því rólega um morguninn og skelltum okkur síðan á ströndina um hádegið. Þar stoppuðum við ekkert, fórum bara í sjóinn í tæpan hálftíma og fengum okkur sinn hvorn kókosinn eftir baðið.
Þaðan fórum við beint á lítinn veitingastað sem heitir Tia Rita, eða Ríta Frænka, og fengum okkur “peixada”, sem er vinsæll fiskiréttur hérna. Þetta er fiskur soðinn í kókosmjólk með ýmsu grænmeti, borinn fram með hrísgrjónum og “pirao”, sem er stappa gerð úr fiskisoði og mandiocamjöli. Maður fær þetta nú varla betra en hjá Rítu Frænku. Við tókum mömmu Marciu með, því þetta er auðveldlega fyrir þrjá.
Seinni partinn eftir matinn fór Marcia á sinn vikulega fund, með vinkonum í einhvers konar biblíupælingar. Ég fór hins vegar í minn 5. tíma á seglbrettanámskeiðinu og er þetta núna allt að koma held ég, eftir hálf brösulega byrjun. Maður er nú farinn að hafa meiri stjórn á málunum og getur keyrt aðeins áfram án þess að detta. Ég gat meira að segja snúið brettinu við standandi, án þess að hoppa í sjóinn og gera það með höndunum og það fannst mér vel af sér vikið.
Horfði síðan á tónleika með Bob Marley, sem ég fékk lánaðan hjá kunningja mínum, The Legend Live. Frábær diskur, þ.e. ef maður fílar manninn á annað borð, sem ég fer núna í að afrita.
Þegar Marcia kom síðan heim, horfðum við á myndina The United States of Leland, sem er ágætis mynd með Kevin Spacey m.a. Ekkert ómissandi og mæli ég fremur með The Interpreter með Sean Penn og Nicole Kidman, sem við sáum í vikunni, nokkuð góð sú.