mánudagur, desember 19, 2005

Sunnudagur hjá Ritu Frænku

Tókum því rólega um morguninn og skelltum okkur síðan á ströndina um hádegið. Þar stoppuðum við ekkert, fórum bara í sjóinn í tæpan hálftíma og fengum okkur sinn hvorn kókosinn eftir baðið.

Þaðan fórum við beint á lítinn veitingastað sem heitir Tia Rita, eða Ríta Frænka, og fengum okkur “peixada”, sem er vinsæll fiskiréttur hérna. Þetta er fiskur soðinn í kókosmjólk með ýmsu grænmeti, borinn fram með hrísgrjónum og “pirao”, sem er stappa gerð úr fiskisoði og mandiocamjöli. Maður fær þetta nú varla betra en hjá Rítu Frænku. Við tókum mömmu Marciu með, því þetta er auðveldlega fyrir þrjá.

Seinni partinn eftir matinn fór Marcia á sinn vikulega fund, með vinkonum í einhvers konar biblíupælingar. Ég fór hins vegar í minn 5. tíma á seglbrettanámskeiðinu og er þetta núna allt að koma held ég, eftir hálf brösulega byrjun. Maður er nú farinn að hafa meiri stjórn á málunum og getur keyrt aðeins áfram án þess að detta. Ég gat meira að segja snúið brettinu við standandi, án þess að hoppa í sjóinn og gera það með höndunum og það fannst mér vel af sér vikið.

Horfði síðan á tónleika með Bob Marley, sem ég fékk lánaðan hjá kunningja mínum, The Legend Live. Frábær diskur, þ.e. ef maður fílar manninn á annað borð, sem ég fer núna í að afrita.

Þegar Marcia kom síðan heim, horfðum við á myndina The United States of Leland, sem er ágætis mynd með Kevin Spacey m.a. Ekkert ómissandi og mæli ég fremur með The Interpreter með Sean Penn og Nicole Kidman, sem við sáum í vikunni, nokkuð góð sú.

laugardagur, desember 17, 2005

Lounge Beach

Um þessar mundir er vinsælt hjá fyrirtækjum að halda veislur fyrir starfsfólk og aðra nákomna, svipað og árshátíðir á Íslandi. Í gærkvöldi var sjónvarpsstöðin TV Uniao með sína veislu á strandbarnum Lounge Beach. Fyrrum aðstoðarmaður minn, Claudio, er einhverri yfirmannsstöðu á þessari stöð, sem er frekar ný og lítil er nokkurs konar blanda af MTV og Skjá 1 og nokkuð vinsæl meðal unglinga, því þeir sýna mikið af tónlistarmyndböndum. Claudio sendi okkur boðsmiða í partýið og við mættum á staðinn um ellefuleitið. Lounge Beach er svona fyrsta klassa strandbar á Framtíðarströndinni (Praia do Futuro).

Partýið var nú ekkert sérstakt og fórum við frekar snemma heim. Við þekktum fáa og ég fílaði heldur ekki staðinn. Til að byrja með, þá fór nafnið strax í taugarnar á mér, því mér finnst pirrandi þegar fólk er að setja ensk nöfn á hluti, hvort sem það er á Íslandi eða hérna í Bras. Síðan er þetta bara svona dæmigerður tískustaður, eins og Broadway var á sínum tíma og síðan Hótel Ísland. Var aldrei fyrir minn smekk og er ekki enn. Ég vil ég miklu fremur fara á Sorriso do Sol (Bros Sólarinnar), sem er annar strandbar á sömu strönd, í lægri klassa og troða þar oft upp lókal (afsk. slettuna) reggae hljómsveitir. Marcia var hins vegar ánægð með staðinn.

föstudagur, desember 09, 2005

Falun Gong

Ég var að lesa í Mogganum í dag að íslensk stjórnvöld væru að spá í að meina meðlimum Falun Gong aðgang að landinu.

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1172828

Hvað hafa Íslendingar eiginlega á móti þessum náungum? Ég hafði nú aldrei heyrt minnst á þetta dæmi áður, en þetta virðist vera hið meinlausasta fólk. Allavega ef marka má Vísindavefinn:

http://www.visindavefur.is/svar.asp?id=2495

Það er kannski ekki pláss fyrir fleiri rugludalla eftir að Bobby Fischer mætti á staðinn.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Seglbrettanámskeið 2

Fór í annan tímann á seglbrettanámskeiðið í morgun kl. 9. Það var aðeins meiri vindur en fyrri daginn og gekk mér aðeins betur, en ekkert sérstaklega vel samt. Það er nú bara töluvert erfitt að halda jafnvæginu á þessu bretti, en kennarinn sagði þetta væri eðlilegt og ég ætti að ná þessu eftir nokkra tíma í viðbót. Ég er nú ekki eins viss og finnst mér ég vera hálf klaufalegur. Sjáum hvað gerist.

Var síðan að vinna heima það sem eftir var dagsins, sem er alltaf notarlegt, en ég er ekki með neitt fast á fimmtudögum og þá getur maður leyft sér þetta.

þriðjudagur, desember 06, 2005

Seglbrettanámskeið

Þetta er búið að vera á döfinni í nokkur ár, en ég hef einhvernveginn aldrei komið mér í það. Ég hef oft fylgst með þessum náungum héðan af svölunum þegar geysa út á haf og iðulega sagt með mér að ég þyrfti nú að fara að skella mér í þetta, en það vantaði alltaf herslumuninn.
Það var nú dáldið erfitt koma þessu saman við vinnuna þegar ég var fastur starfsmaður, enda ekki nógu gott að koma klukkutíma of seint til vinnu 2-3svar í viku. Eftir það kom síðan tímabil þar sem var lítið um afgang í veskinu, en það hefur aðeins batnað. Það var því um að gera að drífa í þessu, á meðan þessa risaalda kemur ekki og maður býr hérna við sjóinn, í 5 mínútna göngufjarlægð frá seglbrettaskólanum.
Ég rölti sem sagt þarna niður á ströndina kl. 8 í morgun og kýldi á þetta. Námskeiðið er 18 tímar og maður ræður því bara sjálfur hvenær maður tekur þessa tíma, sem er nokkuð þægilegt finnst mér.
Það þarf þó að klára það innan tveggja mánuða, það er sanngjarnt og hentar mér ágætlega. Ég stefni því á fara á þriðju- og fimmtudögum og taka síðan einn og annar laugardag.
Fyrsti tíminn gekk bara vel, fyrsti hálftíminn fór í það að sýna manni undirstöðuatriðin á sandinum og síðan var farið í sjóinn. Það var nú töluvert erfiðara að eiga við þetta í vatninu, en mér gekk samt ágætlega fannst mér. Nema þegar kennarinn sagði mér að beygja, þá missti ég fljótlega jafnvægið. En þetta var bara gaman og ég hlakka til að fara aftur á fimmtudaginn.

mánudagur, desember 05, 2005

Mega-Tsunami

Fyrir 1-2 árum var sýndur hér í sjónvarpi fræðsluþáttur frá BBC um risaöldu sem gæti komið í kjölfar eldgoss á Kanaríeyjum. Þetta fyrirbæri kalla þeir mega-tsunami og gæti þessi alda skollið með miklum krafti á strendur norður- og suður-ameríku. Vísindamenn segja að þetta komi til með að gerast einhvern tíman á næstu nokkur þúsundum ára, þannig að maður þarf líklega ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu.


Hins vegar kom miðill einn fram í sjónvarpsþætti í gær á stöðinni TV Diário og sagðist sjá fyrir risöldu sem myndi valda mikilli eyðileggingu hér. Hún ætti sín upptök við Kanaríeyjar og væri um 80 m. á hæð þegar hún kæmi hingað. Miðill þessi, sem heitir Juscelino Nóbrega da Luz, segist einnig hafa séð fyrir risölduna á Indlandshafi í fyrra, árásina á World Trade Center, tilræðið í Madrid, hvar Saddam Hussein væri að finna m.a. (Hann er víst að reyna að fá borgaða peningana sem settir voru til höfuðs fyrrum forsetans, en það gengur víst eitthvað erfiðlega) Hann segist hafa skrifað til viðkomandi stjórnvalda og varað þau við því sem væri framundan í öllum tilvikum, en ekki hlotið neitt svar. En hvað um það, þessi risaalda á sem sagt að gerast milli 2. og 25. nóvember árið 2013, þannig að maður hefur nógan tíma til að undirbúa sig fyrir það. Marcia er komin með smá áhyggjur út að þessu og finnst að við ættum alvarlega að spá í að kaupa hús eða lóð í einverjum bæ inni í landi.

Juscelino þessi sér það einnig fyrir að Italíu vinni heimsmeistarakeppnina á næsta ári. Forsetinn Lula mun ekki ná endurkjöri (sem kemur svo sem ekkert sérstaklega á óvart), borgarstjóri Sao Paulo og fyrrum forsetaframbjóðandi José Serra mun heldur ekki vinna, bjóði hann sig fram á ný, en hins vegar mun núverandi ríkisstjóri Sao Paulo, Geraldo Alckmin, vinna kosningarnar komist hann í framboð. Nú er bara að bíða og sjá hvort hann hafi rétt fyrir sér með þetta.

Hér er að finna greinina á BBC: Mega-Tsunami: Wave of Destruction

sunnudagur, desember 04, 2005

Dæmigerður sunnudagur í dag. Skriðum fram úr í seinna lagi og röltum út á fiskmarkaðinn eftir morgunmat. Þar var einn salinn með fullt af ferskum túnfisk sem ég stóðst ekki og keypti einn lítinn. Marcia var ekki spennt fyrir túnfisknum, þannig að við tókum með einn pargo líka sem var flakaður. Síðan lágum við upp í hengirúmi út á svölum og lásum. Um tvöleitið fórum við síðan í eldhúsið, þar sem ég setti túnfiskinn á grillið og Marcia steikti hinn fiskinn. Þetta var síðan borðað með baunasalati sem við áttum í ísskápnum.


Rúmlega kl. 16 fór Marcia á hinn vikulega fund með nokkrum vinkonum. Ég labbaði niður á ströndina hérna fyrir neðan og skellti mér í sjóinn, sem var ylvolgur eftir daginn. Ég lét mig fljóta um í dágóðan tíma og rölti síðan niður strandgötuna og settist á einn bar, þar sem ég fékk mér einn bjór og horfði á sólina setjast. Sólsetrið er ekki alveg eins fallegt á þessum tíma árs, því núna sígur hún niður bak við blokkirnar en ekki sjóinn eins og á hinum árstímanum. Alveg þess virði samt að fylgjast með þessu fyrirbæri. Á heimaleiðinn kom ég við á japanska veitingastaðnum sem er við strandgötuna og fékk þá til að selja mér smá klípu af wasabi, til að borða túnfisk-sashimi. Nú verð ég að þjóta og skera niður túnann.

laugardagur, desember 03, 2005

Cantinho da Vilany

Ákváðum að fara á Framtíðarströndina (Praia do Futuro) um hádegið, en þá var lágflæði sem er betra til baða sig á þeirri ströndinni.Við ákváðum að fara á bar sem við höfðum ekki lengið komið, Marinhos. Þjónustan var léleg eins og síðast og það rann upp fyrir manni af hverju við biðum svo lengi með það heimsækja þennan stað. Þetta er annars ágætisbar, nokkuð langt á milli borða og kókostré hressa upp á myndina. Sjórinn var mjög góður, volgur og lágum við í smá sundlaug sem hafði myndast við flæðarmálið í góðan tíma. Fengum okkur síðan grillaðan ost og þar á eftir ostrur, sem voru sérstaklega góðan hjá ostrunáunganum, svo góðar að ég tók niður símanúmerið hjá honum. Það er líka hægt að panta heim, t.d. í partý, 100 ostrur takk fyrir sem eru opnaðar á staðnum fyrir gesti. Ekki slæmt Þeir sem vilja geta hringt í 55 85 87090959 og talað bið Bruno. Ég er samt ekki viss um hvort hann taki við alþjóðlegum pöntunum...... líklega ekki, ef maður fer að pæla í því.


Eftir rúma tvo tíma á ströndinni, ákváðum við að fá okkur almennilega að borða og skelltum okkur á Cantinho da Vilany (Hornið hjá Vilany), sem var nýbúið að endurbæta. Endurbæturnar voru því miður til hins verra. Þetta var svona ofboðslega heimilislegur staður. Í litlu lægri-millistéttarhverfi, voru tvær konum með lítill stað heima hjá annari þeirra. Þar voru fjögur lítil plastborð á verönd hússins og oft þétt setið. Til að fara á salernið, gekk maður í gegnum stofuna, þar sem krakkarnir voru að horfa á sjónvarpið, klofaði yfir risatóran schafer hund. Skemmtileg stemmning, maturinn mjög góður og á fínu verði, fiskurinn alltaf ferskur, kolkrabbahrísgrjónin og moqueca-skatan mjög góð og ekki klikkar feijoada á laugardögum.

Nú er búið að stækka staðinn, það var byggt ofan á húsið þar sem þau búa núna og er öll neðri hæðinn orðinn veitingastaður, mjög ¨ordenary¨ staður með lítinn sjarma, en maturinn er enn góður sem er aðalatriðið. Vilany og Vania voru samt yfir sig ánægðar með breytingarnar og gat maður ekki annað en gleðjast með þeim, gaman að sjá þeim ganga vel og geta stækkað við sig. Þær eiga það skilið.


Um kvöldið kíktum við síðan út og ákváðum við að prófa tiltölulega nýjan pizzastað í næsta hverfi, sem kallast Vignoli. Vinalegur staður með borð á gangstéttinni í rólegri götu og pizzan var mjög góð, næfurþunn eins og brassarnir vilja hana. Við fengum okkur hálfa vignoli (steiktur hvítlaukur og ostur) og hálfa klettasalat með sólþurkuðum tómötum. Báðar mjög góðar.