Dæmigerður sunnudagur í dag. Skriðum fram úr í seinna lagi og röltum út á fiskmarkaðinn eftir morgunmat. Þar var einn salinn með fullt af ferskum túnfisk sem ég stóðst ekki og keypti einn lítinn. Marcia var ekki spennt fyrir túnfisknum, þannig að við tókum með einn pargo líka sem var flakaður. Síðan lágum við upp í hengirúmi út á svölum og lásum. Um tvöleitið fórum við síðan í eldhúsið, þar sem ég setti túnfiskinn á grillið og Marcia steikti hinn fiskinn. Þetta var síðan borðað með baunasalati sem við áttum í ísskápnum.
Rúmlega kl. 16 fór Marcia á hinn vikulega fund með nokkrum vinkonum. Ég labbaði niður á ströndina hérna fyrir neðan og skellti mér í sjóinn, sem var ylvolgur eftir daginn. Ég lét mig fljóta um í dágóðan tíma og rölti síðan niður strandgötuna og settist á einn bar, þar sem ég fékk mér einn bjór og horfði á sólina setjast. Sólsetrið er ekki alveg eins fallegt á þessum tíma árs, því núna sígur hún niður bak við blokkirnar en ekki sjóinn eins og á hinum árstímanum. Alveg þess virði samt að fylgjast með þessu fyrirbæri. Á heimaleiðinn kom ég við á japanska veitingastaðnum sem er við strandgötuna og fékk þá til að selja mér smá klípu af wasabi, til að borða túnfisk-sashimi. Nú verð ég að þjóta og skera niður túnann.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home