mánudagur, janúar 28, 2008

Mangóferð

Við fórum um helgina upp í fjöll og eins og oft áður gistum við í tjaldi á Lua Azul. Að þessu sinni voru með okkur Paulo og kærasta hans, Talita og labradorhvolpurinn Ghandi. Við lögðum af stað snemma á laugardagsmorgun, fengum okkur morgunmat á gömlum búgarði á leiðinni. Við stoppuðum einnig á leiðinni hjá fólki sem var að selja ávexti, en þar var ekkert sem mér þótti spennandi. Paulo sagðist hins vegar elska mangó, en Talita sagði að hann gæti örugglega fengið mangó upp frá. "Vitleysa" sagði Paulo og keypti fullan poka af mangó.
Þegar við komum á áfangastað, blöstu við okkur mörg mangótré full af ávöxtum og mangó sem lá eins og hráviður út um allt, því fólk hefur ekki við að tína það upp. Paulo var ansi vandræðalegur þegar hann brölti út úr bílnum með pokann fullan.
Annars var helgin fín, fórum í fossabað, borðuðum svokallaða sveitahænu og spiluðum rommý. Sunnudagurinn var með síðan með svipuðu móti og við renndum í bæinn seinni partinn.
Myndir hér.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home