Laugardagur í Janúar
En talandi um nýtt ár, þá heyrði ég einhvern tíman að fyrsta vika ársins gæfi til kynna um hvernig árið í heild myndi verða. Ekki það að ég leggi eitthvað sérstaklega mikla trú á það, en þetta ár byrjaði bara nokkuð vel, allavegana betur en síðasta. Ekkert sérstaklega mikið um vinnu, en það sem er í gangi hefur verið fjárhagslega gott og það hefur gefist tími til að stunda seglbrettanámskeiðið, farið á ströndina og haft það bara næs.
Hvað um það, ég byrjaði laugardaginn á því að fara á verkstæðið hjá Giuseppe, sem ítalskur og lítur út eins og vélvirki hjá Ferrari. Það var ýmislegt sem þurfti að dytta að, dynkir í framhjólunum, bilað framljós, biluð flauta og lekandi rúðupiss. Ég endaði með því að skipta um öll dekk og hinu flestu var reddað líka, nema rúðupissinu. Það gafst ekki tími í það því þeir hætta að vinna á hádegi á laugardögum, en það skiptir ekki svo miklu máli, því hér eru náungar á öðrum hverjum gatnamótum æstir í að þrífa framrúður fyrir smápening.
Við borðuðum síðan heima í hádeginu, kjúklingabryngur með salati og fékk mér líka soðið ¨macaxeira¨(líka kallað mandioca eða manioc og cassava), rót sem er mikið notuð hér í matargerð). Allt um þess rót hér.
Seinni partinn röltum við síðan hérna niður á strandgötu, fengum okkur acarajé og horfðum á sólina setjast.
Drifum okkur síðan í bíó og sáum ¨Stay¨ með Ewan McGregor. Mögnuð mynd sem maður hugsar um lengi á eftir og langar helst til að sjá sem fyrst aftur.
Á heimleiðinni stoppuðum við á Praia de Iracema, þar sem var svokallað pre-carnaval á fullu. En það er svona mini-carnaval á undan aðal kjötkveðjuhátíðinni, litlir hópar sem koma saman og spila samba, frevo, og þramma stutta vegalengd eftir nokkrum götum. Þar var mikið fjör og fylgdust við með því í smá stund.
4 Comments:
Óendanlega gaman að fá þig í bloggheima, kæri frændi.
En sem intelektúalt er þér ekki samboðið að vera bara með kasál ríport frá bifreiðaviðgerðum og slíku.
Þinn frændi,
Orri.
:-) Jú, það er líklega rétt hjá þér. Ég er bara svo skriflatur þessa daga, að ef ég ætla að bíða með það vera með eitthvað háfleygt, þá verður varla mikið að gerast á þessu bloggi.
Þakka þér annars fyrir að kíkja við og til hamingju með diskinn, ég frétti að hann væri að fá hörkugóða dóma.
Heill og sæll frændi!
Ég er nú ekki alveg sammála bróður mínum í þessu máli...hef einmitt haft mjög gaman af þessum hversdagslegu smámyndum þínum. Þið lifið greinilega mjög svo sólfylltu nautnalífi í Brasilíu og það er áhugavert að skyggnast aðeins inn í það :)
Ég hvet þig bara til að halda áfram á sömu braut - fróðleiksmolar um matar-og drykkjarmenninguna eru sérstaklega skemmtilegir...
Bestu kveðjur,
Sigurður Már
Margblessaður og sæll.
OK. Þú vinnur þá og ég held áfram þessu þrasi um hversdagsleikann. Þetta var nú bara léttir, því ég var farinn að finna fyrir pressu um að þurfa að fara skrifa eitthvað merkilegt ;-)
Kem kannski næst með léttan matarpistil.
Það væri annars gaman að fá fleiri fréttir af ykkur bræðrum um hvað þið eruð að vesenast.
Skrifa ummæli
<< Home