sunnudagur, mars 19, 2006

Helgi í Mars

Hún hefur verið ágæt helgin hingað til. Þurfti reyndar aðeins að skreppa í vinnuna í gær um hádegisbilið. Það var eitthvað fólk frá Sao Paulo að gera hér auglýsingu fyrir ríkisstjórnina og þeim vantaði efni, sem þau náðu ekki á myndband, en var til í myndasafninu hjá mér. Ég hálf sá eftir því að hafa tekið þetta verkefni, enda ekki það skemmtilegasta sem ég geri að gramsa í gömlum spólum grafa upp eitthvað efni og þetta tekur alltaf lengri tíma en maður heldur.
Við Marcia vorum búin að ákveða að fara á ströndina og komumst ekki fyrr en kl. 1630, sem er í seinna lagi, en það var vel þess virði. Bjórinn var ískaldur og sjórinn yndislega volgur. Það jafnast ekkert á við gott sjóbað til að hreinsa lífsorkuna. Þaðan fórum við og fengum okkur að borða á ágætis stað, pönnusteikt fiskflak með grænmeti og hrísgrjónum, sem var prýðilegt.
Um kvöldið fór Marcia í smá hóf með vinkonum sínum, en ég var heimavið í rólegheitum. Horfði á heimildarmynd um Clash á DVD og sofnaði í hengirúminu úti á svölum.

Í dag vöknuðum við seint og eftir léttan morgunverð skruppum við aftur á ströndina, sem var fínt. Stoppuðum stutt og fengum okkur sinn hvorn kókosinn eftir baðið. Þaðan fórum við til tengdó, sem hafði boðið okkur í hádegismat. Hjá henni var nautatunga og caruru á boðstólnum, hvorutveggja mjög gott.
Marcia fór síðan á sinn vikulega fund á sunnudögum og ég ætla að skella mér núna á reggae tónleika á ströndinni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home