mánudagur, mars 27, 2006

Guaramiranga

Það var fínt hjá okkur yfir helgina. Vöknuðum snemma á laugardagsmorgun og vorum komin af stað kl. 0740 og var leiðinni haldið til Guaramiranga, sem er lítill sjarmerandi bær upp í Baturité fjöllunum, 100km frá Fortaleza. Ætlunin var að kanna gististað fyrir u.þ.b. 9 manns á aldrinum 4-78 ára í júní. Ferðin tók tæpa 2 tíma og stoppuðum við fyrst á hóteli sem kallast Parque das Cachoeiras (Fossagarðurinn), en þar eru víst 4 fossar og skemmtilegar gönguleiðir um skóginn. Hótelið var samt ekki nógu sjarmerandi, en þar við hliðina var skemmtilegur gististaður, Lua Azul (Bláa Tunglið), sem okkur leist mjög vel á, einn foss á sjálfri lóðinni og sjarmerandi hengibrú yfir ánna til að komast að svefnstaðnum. Herbergin voru þó ekki nema tvö og síðan er þar tjaldstæði, þannig að það er spurning um hvort sumir séu tilbúnir að tjalda.

Þaðan héldum við á gistiheimilið Paraíso, þar sem við höfðum ákveðið að vera yfir nóttina, en höfðum gist áður á sama stað fyrir nokkrum árum. Þetta er sjarmerandi staður, með fjórum herbergjum í aðalhúsinu og nokkrum smáhýsum í kring inn í skóginum. Eftir að við höfðum komið okkur fyrir, þá drifum við okkur af stað og fórum í það að skoða nokkur gistiheimili í nágrenninu. Sá skemmtilegasti er líklega Nosso Sítio, sem er á stóru landsvæði og með nokkrum rúmgóðum sumarhúsum.

Síðan fengum við okkur að borða á góðum veitingastað, sem var þar rétt hjá.

Eftir matinn fórum við aftur niður á Lua Azul og fórum þar í fossabað. Eftir baðið fengum við okkur smá snarl, Marcia fékk sér kaffi og tapioca og ég bjór og grillpinna. Svo fórum við á Paraíso, þar sem við drukkum rauðvín, borðuðum ost og spiluðum War. Þarna verður dáldið kalt á næturnar og var notarlegt að klæða sig aðeins upp.

Það er notarlegt að sofa aðeins út þarna upp í fjöllum og eftir góðan morgunmat héldum við af stað niður eftir. Við stoppuðum hjá einum fossi, sem við höfðum ekki komið áður og reyndist hann einn sá skemmtilegasti á svæðinu. Vorum þar í góða stund og fórum í gott bað. Borðuðum síðan hádegismat á Lua Azul og drifum okkur í bæinn, því Marcia þurfti að fara á sinn vikulega fund kl. 17.

Þetta var sem sagt prýðileg ferð þó í styttra lagi hafi verið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home