mánudagur, mars 27, 2006

Guaramiranga

Það var fínt hjá okkur yfir helgina. Vöknuðum snemma á laugardagsmorgun og vorum komin af stað kl. 0740 og var leiðinni haldið til Guaramiranga, sem er lítill sjarmerandi bær upp í Baturité fjöllunum, 100km frá Fortaleza. Ætlunin var að kanna gististað fyrir u.þ.b. 9 manns á aldrinum 4-78 ára í júní. Ferðin tók tæpa 2 tíma og stoppuðum við fyrst á hóteli sem kallast Parque das Cachoeiras (Fossagarðurinn), en þar eru víst 4 fossar og skemmtilegar gönguleiðir um skóginn. Hótelið var samt ekki nógu sjarmerandi, en þar við hliðina var skemmtilegur gististaður, Lua Azul (Bláa Tunglið), sem okkur leist mjög vel á, einn foss á sjálfri lóðinni og sjarmerandi hengibrú yfir ánna til að komast að svefnstaðnum. Herbergin voru þó ekki nema tvö og síðan er þar tjaldstæði, þannig að það er spurning um hvort sumir séu tilbúnir að tjalda.

Þaðan héldum við á gistiheimilið Paraíso, þar sem við höfðum ákveðið að vera yfir nóttina, en höfðum gist áður á sama stað fyrir nokkrum árum. Þetta er sjarmerandi staður, með fjórum herbergjum í aðalhúsinu og nokkrum smáhýsum í kring inn í skóginum. Eftir að við höfðum komið okkur fyrir, þá drifum við okkur af stað og fórum í það að skoða nokkur gistiheimili í nágrenninu. Sá skemmtilegasti er líklega Nosso Sítio, sem er á stóru landsvæði og með nokkrum rúmgóðum sumarhúsum.

Síðan fengum við okkur að borða á góðum veitingastað, sem var þar rétt hjá.

Eftir matinn fórum við aftur niður á Lua Azul og fórum þar í fossabað. Eftir baðið fengum við okkur smá snarl, Marcia fékk sér kaffi og tapioca og ég bjór og grillpinna. Svo fórum við á Paraíso, þar sem við drukkum rauðvín, borðuðum ost og spiluðum War. Þarna verður dáldið kalt á næturnar og var notarlegt að klæða sig aðeins upp.

Það er notarlegt að sofa aðeins út þarna upp í fjöllum og eftir góðan morgunmat héldum við af stað niður eftir. Við stoppuðum hjá einum fossi, sem við höfðum ekki komið áður og reyndist hann einn sá skemmtilegasti á svæðinu. Vorum þar í góða stund og fórum í gott bað. Borðuðum síðan hádegismat á Lua Azul og drifum okkur í bæinn, því Marcia þurfti að fara á sinn vikulega fund kl. 17.

Þetta var sem sagt prýðileg ferð þó í styttra lagi hafi verið.

föstudagur, mars 24, 2006

Vetur í Fortaleza

Hér í borg hefur Vetur-Konungur ráðið ríkjum í vikunni. Það hefur rignt á hverjum degi, ekki þessi venjulega nætur eða snemmamorguns rigning, heldur hefur verið þungskýjað heilu dagana og gengið á með skúrum yfir daginn. Fínt að fá svona veður til að breyta aðeins til og við ætlum að notfæra okkur veðurlagið og skella okkur upp í fjöllin Baturité og vera í Guaramiranga yfir helgina.

sunnudagur, mars 19, 2006

Helgi í Mars

Hún hefur verið ágæt helgin hingað til. Þurfti reyndar aðeins að skreppa í vinnuna í gær um hádegisbilið. Það var eitthvað fólk frá Sao Paulo að gera hér auglýsingu fyrir ríkisstjórnina og þeim vantaði efni, sem þau náðu ekki á myndband, en var til í myndasafninu hjá mér. Ég hálf sá eftir því að hafa tekið þetta verkefni, enda ekki það skemmtilegasta sem ég geri að gramsa í gömlum spólum grafa upp eitthvað efni og þetta tekur alltaf lengri tíma en maður heldur.
Við Marcia vorum búin að ákveða að fara á ströndina og komumst ekki fyrr en kl. 1630, sem er í seinna lagi, en það var vel þess virði. Bjórinn var ískaldur og sjórinn yndislega volgur. Það jafnast ekkert á við gott sjóbað til að hreinsa lífsorkuna. Þaðan fórum við og fengum okkur að borða á ágætis stað, pönnusteikt fiskflak með grænmeti og hrísgrjónum, sem var prýðilegt.
Um kvöldið fór Marcia í smá hóf með vinkonum sínum, en ég var heimavið í rólegheitum. Horfði á heimildarmynd um Clash á DVD og sofnaði í hengirúminu úti á svölum.

Í dag vöknuðum við seint og eftir léttan morgunverð skruppum við aftur á ströndina, sem var fínt. Stoppuðum stutt og fengum okkur sinn hvorn kókosinn eftir baðið. Þaðan fórum við til tengdó, sem hafði boðið okkur í hádegismat. Hjá henni var nautatunga og caruru á boðstólnum, hvorutveggja mjög gott.
Marcia fór síðan á sinn vikulega fund á sunnudögum og ég ætla að skella mér núna á reggae tónleika á ströndinni.

fimmtudagur, mars 16, 2006

What's Your Sexy Brazilian Name?

Óheppilegt að ég hafi ekki uppgötvað þessa snilld fyrr. Það hefði sparað mér heilmikið vesen hérna í gegnum árin. En betra er seint en aldrei og nú skora ég á alla verðandi brasilíufara sem og aðra að smella á slóðina hérna fyrir neðan og setja niðurstöðurnar á comment hérna. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út.


Your Sexy Brazilian Name is:

Paulo Otelo

miðvikudagur, mars 15, 2006

Acarajé

baianaÉg hef víst nokkrum sinnum talað um "acarajé", þannig að það er kannski við hæfi að segja aðeins frá því.
"Acarajé" mætti kannski kalla hina brasilísku "eina með öllu", en það er víða selt hér úti á götu, aðallega þó í fylkinu Bahia, þaðan sem það á rætur sínar að rekja.
"Acarajé" er ávallt boðið fram af svokallaðri "baiana", sem þýðir einfaldlega "kona frá Bahia", en þær eru yfirleitt hvítklæddar, í stóru pilsi og með klæði vafið um höfuðið.

Hið ljúffenga "acarajé" samanstendur annars af eftirfarandi: Bollu á stærð við hamborgarabrauð, sem er skorin í tvennt og fyllt með "pimenta", "vatapá", "caruru", þurrkuðum rækjum og söxuðum tómötum.

acarajeBollan sjálf er gerð úr deigi úr "fradinho" baunum (litlar hvítar með svart "auga") og steikt í "dendê" olíu. "Dendê" olían, sem er brúngul að lit, á rætur sínar að rekja til Afríku og er hún unnin úr hnetum af pálmatré einu.
"Pimenta" er eldsterk sósa unnin úr "malagueta" piparávöxt.
vatapa"Vatapá" er appelsínugul stappa, gerð úr brauði, kókosmjólk og "dendê" olíu.
caruru"Caruru" er græn slímkennd stappa gerð úr grænmeti sem kallast "quiabo" eða "okra" og er víst líka mikið notað í "cajun" matargerð í Louisiana. Það tók mig smá tíma til að komast á bragðið, en nú er þetta í miklu uppáhaldi.

quiabo

sunnudagur, mars 12, 2006

Kominn aftur

Nú hef ég alveg verið að koksa á þessu bloggi undanfarið, en ég hef ákveðið að streytast aðeins við þetta.
Þetta rann allt í sandinn fyrir u.þ.b. mánuði þegar allt í einu komu upp 2 verkefni í einu, fyrir utan þessi daglegu. Ein stór auglýsingin fyrir eitthvað verkfræðifyrirtæki sem kallast Alusa og var nýbúið að setja í gang nýja rafmagnsleiðslu frá borginni Teresina til Fortaleza. Þeir vildu af einhverjum völdum monta sig af þessu mannvirki í sjónvarpi, þannig að þeir fengu Söndru til að framleiða eina auglýsingu fyrir sig. Það var nú óþarflega mikið tilstand í kringum þetta allt og var afraksturinn hálf ómerkilegur (sem má sjá hér), en þetta var ágætlega borgað þannig að allt er í fínu lagi.
Síðan kom þarna upp á sama tíma 10 mínútna vídeo fyrir eina verslun sem ég geri oft sjónvarpstilboð fyrir. Þessi verslun var að hefja eitthvað samstarf við einn bankann og það var tilefni stórveislu á lúxushóteli með blaðamannafundi, þar sem samstarfið var kynnt með fyrrnefndu myndbandi. Frekar leiðinlegt verkefni en nokkuð vel borgað og í kjölfarið komu nokkur minni verkefni.
Síðan fékk maður glæsta heimsókn frá Íslandi, en það gerist ekki oft og þá er maður ekkert að hanga yfir tölvunni í einhverjum dagbókaskrifum.