Laugardagur í Janúar
En talandi um nýtt ár, þá heyrði ég einhvern tíman að fyrsta vika ársins gæfi til kynna um hvernig árið í heild myndi verða. Ekki það að ég leggi eitthvað sérstaklega mikla trú á það, en þetta ár byrjaði bara nokkuð vel, allavegana betur en síðasta. Ekkert sérstaklega mikið um vinnu, en það sem er í gangi hefur verið fjárhagslega gott og það hefur gefist tími til að stunda seglbrettanámskeiðið, farið á ströndina og haft það bara næs.
Hvað um það, ég byrjaði laugardaginn á því að fara á verkstæðið hjá Giuseppe, sem ítalskur og lítur út eins og vélvirki hjá Ferrari. Það var ýmislegt sem þurfti að dytta að, dynkir í framhjólunum, bilað framljós, biluð flauta og lekandi rúðupiss. Ég endaði með því að skipta um öll dekk og hinu flestu var reddað líka, nema rúðupissinu. Það gafst ekki tími í það því þeir hætta að vinna á hádegi á laugardögum, en það skiptir ekki svo miklu máli, því hér eru náungar á öðrum hverjum gatnamótum æstir í að þrífa framrúður fyrir smápening.
Við borðuðum síðan heima í hádeginu, kjúklingabryngur með salati og fékk mér líka soðið ¨macaxeira¨(líka kallað mandioca eða manioc og cassava), rót sem er mikið notuð hér í matargerð). Allt um þess rót hér.
Seinni partinn röltum við síðan hérna niður á strandgötu, fengum okkur acarajé og horfðum á sólina setjast.
Drifum okkur síðan í bíó og sáum ¨Stay¨ með Ewan McGregor. Mögnuð mynd sem maður hugsar um lengi á eftir og langar helst til að sjá sem fyrst aftur.
Á heimleiðinni stoppuðum við á Praia de Iracema, þar sem var svokallað pre-carnaval á fullu. En það er svona mini-carnaval á undan aðal kjötkveðjuhátíðinni, litlir hópar sem koma saman og spila samba, frevo, og þramma stutta vegalengd eftir nokkrum götum. Þar var mikið fjör og fylgdust við með því í smá stund.