mánudagur, janúar 28, 2008

Mangóferð

Við fórum um helgina upp í fjöll og eins og oft áður gistum við í tjaldi á Lua Azul. Að þessu sinni voru með okkur Paulo og kærasta hans, Talita og labradorhvolpurinn Ghandi. Við lögðum af stað snemma á laugardagsmorgun, fengum okkur morgunmat á gömlum búgarði á leiðinni. Við stoppuðum einnig á leiðinni hjá fólki sem var að selja ávexti, en þar var ekkert sem mér þótti spennandi. Paulo sagðist hins vegar elska mangó, en Talita sagði að hann gæti örugglega fengið mangó upp frá. "Vitleysa" sagði Paulo og keypti fullan poka af mangó.
Þegar við komum á áfangastað, blöstu við okkur mörg mangótré full af ávöxtum og mangó sem lá eins og hráviður út um allt, því fólk hefur ekki við að tína það upp. Paulo var ansi vandræðalegur þegar hann brölti út úr bílnum með pokann fullan.
Annars var helgin fín, fórum í fossabað, borðuðum svokallaða sveitahænu og spiluðum rommý. Sunnudagurinn var með síðan með svipuðu móti og við renndum í bæinn seinni partinn.
Myndir hér.

föstudagur, janúar 25, 2008

Skjaldbaka

Marcia að hringdi áðan. Hún fór á ströndina með Gabriel. Efir dágóðan tíma þar, settist hún niður, horfði út á hafið, fór að hugleiða og setti sig í samband við náttúruna. Eftir smá stund sér hún litla skjaldböku í sjónum rétt hjá sér. Hún virtist vera þreytt og Marcia fór með hana heim. Hún var líka hrædd um að annað fólk í kring færi að gera henni mein. Ég sagði henni að hringja í IBAMA (nk. náttúruverndarráð) og þeir ætla að koma og ná í hana á eftir og koma henni á öruggan stað. Marcia kom henni síðan fyrir í bala út á svölum meðan hún bíður eftir að vera sótt.


sunnudagur, janúar 20, 2008

Ávaxtré gróðursett

Við skruppum á lóðina sem við keyptum í fyrra og gróðursettum þrjú ávaxtatré:

- Pitangueira, sem er brasilískt að uppruna og á vaxa ber sem kallast Pitanga;

- Sapotizeiro sem er upprunalega frá Mið-Ameríku og var trjákvoða þess lengi notuð til að framleiða tyggigúmmí, en einnig vex á því einn minn uppáhalds ávöxtur sem kallast Sapoti eða Sapodilla;

- Cabeça-de-negro (negrahaus), sem á vex Ata, líka kallað Pinha og Fruta-do-Conde, upprunaleg frá Karabíska-hafinu, í laginu eins og amerísk handsprengja og er líka í miklu uppáhaldi hjá mér.

Þetta var bara gaman og er ætlunin að planta fleiri trjám á næstunni.

föstudagur, janúar 11, 2008

Ísland-Fortaleza

Ferðin til Stansted gekk vel fyrir sig og komum við með hálftíma seinkun. Ég fór strax í að finna mér svefnstað og hringdi á nokkur Bed & Breakfast í Bishop´s Stortford, en engin af þeim ódýrari reyndist vera með internet tengingu. Allir minntust þó á cyber café í miðbænum sem átti að vera með tengingu. Ég skellti mér því á ódýrasta B&B á listanum, skildi töskuna eftir þar og gekk niður í miðbæ, sem reyndist í meiri fjarlægð en ég átti von á, 20-30 min. labb. Það var þó í fínu lagi, gaman að kynnast bænum svona og sá ég mjólkurbíl á leiðinni, einn af þessum sem ber út mjólkurflöskur eins og dagblöð. Ég hélt að svoleiðis væri ekki til lengur og hafði gaman af. Í miðbænum reyndi ég árangurslaust að finna einhvern stað með þráðlausri nettengingu (wifi), spurðist fyrir í verslunum, á kaffihúsum og ferðamannaskrifstofunni, en árangurslaust. Endaði á bókasafninu, þar sem ég komst í netsamband í hálftíma og reddaði því í Fortaleza, sem þurfti að redda, en þar var allt með rólegra móti.

Ég var orðinn glorhungraður eftir allt ferðalagið og ákvað að fá mér hinn típíska enska rétt Fish&Chips á einhverri skítabúllu, en fiskurinn var ferskur og mjög góður, enda líklega frá Íslandi. Kartöflurnar voru hins vegar ekkert spes. En þetta fyllti vel í magan og nú var kominn tími á einn bjór. Ég rölti inn á næsta pöbb og bað um einn maltbjór, sem var goslaus en samt ágætur á bragðið. Ég prófaði að taka upp tölvuna og viti menn, hún datt bara inn á einhverja nettenginu í nágrenninu. Ég var því í þokkalegu (var oft að detta út) sambandi næstu tvo tímana og gat unnið töluvert, meðan ég renndi niður tvemur bjórum.

Eftir það fór ég í göngutúr um miðbæinn, sem er ekki mikið spennandi. Gömul kirkja, með afmáðum legsteinum allt í kring og ein verslunargata. Það var samt gaman að spóka sig um og fylgjast með mannlífinu. Sniðugt að sjá skólakrakkana í sínum bresku skólabúningum, pils eða jakkaföt og bindi. Kl. 18 var síðan kominn tími til að tengja sig aftur og fór ég þá inn á hið fræga cyber café White Spot. Þar reyndist líka vera þráðlaust tenging fyrir fartölvur og ég bölvaði sjálfum mér fyrir að hafa ekki tékkað á því strax og ég kom. En mín reynsla er að yfirleitt er ekki þráðlaus tenging á svona stöðum. Þar var ég síðan í fínu sambandi í klukkutíma og gat reddaði smá veseni sem hafði komið upp í Fortaleza.

Síðan rölti ég á Aston Bed & Breakfast og kom við í einni verslun á leiðinni þar sem ég verslaði mér eina flösku af Abbot maltbjór og kartöfluflögum, þar sem ég sá fram á að ég færi ekkert frekar út þann daginn. Á Aston spjallaði ég aðeins við konuna þar, fór í sturtu og kom mér síðan fyrir upp í rúmi. Það vakti athygli mína að baðherbergið var teppalagt, en ég hafði einmitt undrast yfir því fyrir nokkum dögum, að fólk væri að teppjaleggja baðherbergi í nýjum húsum á Ísandi og sagðist aldrei hafa séð það nokkur staðar. Í bælinu horfði ég síðan á myndina Hafið sem ég var með í tölvunni.

Vaknaði snemma næsta dag, enda þurfti ég að vera kominn upp á flugvöll kl. 7:20. Þar sem morgunverður byrjaði kl. 7, náði ég honum ekki því miður, en konan á Aston var svo væn að útbúa handa mér tvær samlokur með osti í nesti. Þegar á Stansted var komið fékk ég að vita að það væri klukkutíma seinkun á vélinni til Grænhöfðaeyja. Ekki leist mér á það, þar sem “hrakningarnar” á hinni leiðinni höfðu einmitt byrjað þannig. En ég tékkaði mig inn, keypti mér síðan ávaxtasafa og borðaði samlokurnar. Áhyggjurnar reyndust síðan ástæðulausar og vélin fór í loftið kl. 10:40, sem var nokkurn veginn áætlaður tími. Það voru ekki nema um 10 farþegar í vélinnni, sem var merkt Travel Service og virtist vera frá Tékklandi sem og áhöfnin. Flugið var fínt, enda fékk maður góða þjónustu og gat komið sér vel fyrir í svona fámenni.

Við lentum síðan á eyjunni Sal, sem er ein af mörgum sem mynda Grænhöfðaeyjar, kl. 15:45, eftir u.þ.b. sex tíma flug. Landslagið á eyjunni er eyðimerkurlegt, hálf flatt, en einhver fjöll, sem minn á eldfjöll rísa upp úr landslaginu. Mér var fljótlega tilkynnt að þriggja tíma töf væri á fluginu til Fortaleza og varð ég fyrir smá vonbrigðum, en ég vonaðist aðeins eftir því að fluginu hefði verið aflýst og fá fengi ég að kynnast aðeins staðnum í einn eða tvo daga, en mér fannst spennandi að vera kominn til Afríku. En maður mátti ekki fara neitt út og reyndi ég að drepa tímann af bestu getu. Flugvöllurinn ber ekki mikið yfir sér, hálfgerð BSÍ, einn rútustöðubar, ein lítil fríhöfn með ótrúlega litlu úrvali (ein tegund af viskí, ein af koniak, svart Toblerone, poki af Mars og einhverju svissnesku súkkulaði líka o.s.frv.) ein verslun með lókal dóti (sb. Rammagerðin) þar sem ég keypti flösku af sykurreyrsbrennivíni staðarins.

Ferðin til Fortaleza gekk síðan vel fyrir sig líka, vélin var hálffull og fékk aftur þrjú sæti fyrir mig einan, þannig að ég svaf mest allan tímann. Vegabréfsskoðunin gekk ótrúlega vel fyrir sig, enda fer ég núna í sömu röð og brassarnir, þar sem ég er búsettur í landinu, og ekki var neitt vesen með tölvukerfið hjá þeim. Það hlakkaði eilítið í mér þegar ég horfði á löngu útlendingaröðina drattast hægt áfram. Marcia tók síðan á móti mér og þegar heim var komið var hún búin að skreyta íbúðina með rósum og útbúa léttan kvöldverð með humar og salati. Eftir matinn skiptumst við síðan á jólagjöfum.